Þyrluæfing með hundahóp

Í dag, sunnudaginn 27.febrúar, var haldin hundaæfing með þyrlu Landhelgisgæslunnar (LHG).
Fyrir stuttu var haldin þyrluæfing með bátahóp BFÍ og Tinda og í lokin átti að láta hundateymi síga niður úr þyrlunni. Það var hinsvegar ekki hægt sökum veðurs. Þess vegna bauðst LHG til að koma í dag og halda þá æfingu með hundahópnum. TF-LÍF kom frá LHG ásamt 4 manna áhöfn.

Æfingin byrjaði kl 15:00 á Ísafjarðarflugvelli. Þau hundateymi sem mættu á vegum BFÍ voru Auður og Skíma, Hörður og Skvísa, Skúli og Patton, Ólína og Skutull. Einnig Þórir og Jóka frá Kofra í Súðavík. Öll þessi hundateymi æfa einnig með Björgunarhundasveit Íslands www.bhsi.is . Siggi, Sverrir og Sigrún voru okkur til aðstoðar við að taka myndir og video.

Auðunn, sigmaður, byrjaði á að fara yfir hlutina með okkur, hvað við ætluðum að gera og hvernig. Næst voru hundarnir látnir fara inn í þyrluna á meðan hún var ekki í gangi. Eftir það fórum við akandi í Arnardal og þyrlan kom á eftir okkur.

Í Arnardal var farið með hundana í þyrluna meðan hún var í gangi og þegar því var lokið voru hundateymin hífð um borð eitt í einu. Þegar öll hundateymin voru komin um borð var flogið með okkur á Ísafjarðarflugvöll þar sem æfingunni lauk.

Markmið æfingarinnar var að venja hunda og menn við að umgangast þyrluna og hvernig farið er að við að vera hífður upp eða látinn síga úr þyrlu. Það geta, og hafa, komið útköll þar sem hundateymi eru flutt með þyrlu á vettvang. Sá möguleiki að geta látið hundateymi síga niður, eða vera hífð upp, úr þyrlu gerir það að verkum að hægt er að setja hundateymi út næstum hvar sem er þegar til útkalls kemur.

Við þökkum Landhelgisgæslunni og áhöfn TF-LÍF kærlega fyrir daginn.

This entry was posted in Almennt, Æfingar. Bookmark the permalink.

Comments are closed.