Annáll 2019

Árið hefur veðir viðburðarríkt hjá félaginu,hér verður stiklað á stóru hvað varðar starfið og útköllin.

Á árinu héldum við upp á 20 ára afmæli félagsins sem tókst vel í alla staði þökk sé dyggum stuðningsaðilum sem hjálpuðu okkur að láta þetta verða að veruleika en boðið var upp á sjávarréttahlaðborð þar sem yfir 120 manns gæddu sér á dýrindis fiskmeti að hætti þeirra Steina,Evu og Eiríks.

Við stóðum vaktina í Fossavatnsgöngunni eins og mörg undanfarin ár og gekk það prýðilega þrátt fyrir leiðindaveður og lítinn snjó.

Löng bið er búin að vera eftir nýju björgunarskipi en það silgdi loks inn Ísafjarðardjúp að morgni 27.maí en þá höfðu vaskir menn lokið nokkurra daga siglingu frá BODO í Noregi. Skipið fór svo í sitt fyrsta útkall mánuði seinna og reyndist vel.

Stór hluti af fjármagni þess nýja skips kom úr heimabyggð og má þakka þeim sem lögðu hönd á plóg og gerðu þetta að veruleika.

Það mæddi mikið á nýja skipinu sem hefur farið í 17 útköll á árinu og mjög stór hluti eru sjúkraflutningar en einnig var nokkuð um vélavana báta sem dregnir voru heim. Góð reynsla kom á skipið og áhöfnin er gríðarlega ánægð með þessa uppfærslu á skipi.

Hér fyrir neðan er fjöldi útkalla yfir sumarið

júní-8 útköll

júlí-8 útköll

ágúst-sept-6 útköll

Okkur tókst að endurnýja sleða á árinu en þó hefur lítil reynsla komið á hann sökum tíðarfars en við vonum að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og við fáum tækifæri til að þjálfa mannskapinn upp.

Hópur frá BFÍ stóð vaktina á hálendinu í eina viku annað árið í röð og menn reynslunni ríkari eftir þá dvöl enda mikil umferð um svæðið og hlutverk okkar er að vera til taks og leiðbeina ferðafólki.

Starfið hófst svo í september en meðlimir hittast á skipulögðum æfingum eða fundum alla mánudaga,þar fyrir utan er hist eins og tækifæri gefst á miðvikudögum þar sem almennu viðhaldi á húsnæði eða tækjum er sinnt. Aðalstjórn heldur sína stjórnarfundi þriðja miðvikudag í hverjum mánuði en þar að auki eru fjölmargar minni nefdir sem hittast eftir þörfum.

Í byrjun desember fer alltaf af stað fjáröflunarvertíð en þar má helst nefna Jólatrjáasölu og Flugeldasölu en það eru okkar burðarliðir á komandi ári.

Við fengum rausnalega gjöf í lok árs en okkur var gefinn Nissan patrol 38″ 3.0 frá fyrirtækinu Wild Westfjords og þökkum við þeim kærlega fyrir þennan veglega styrk.

Að lokum þá langar okkur að þakka fyrirtækjum og einstaklingum sem stutt hafa dyggilega við bakið á okkur en án þeirra værum við ekki neitt.

Gleðilegt ár

Takk fyrir stuðninginn!

This entry was posted in Almennt. Bookmark the permalink.

Comments are closed.