Páskar og skíðamótið

Mikið hefur verið að gera síðan fyrir páska. Á páskum var skíðavikan og var múgur og margmenni á skíðasvæðum, bæði á svigskíðum og gönguskíðum. Okkar menn voru að sjálfsögðu á fjöllum alla páskana. Allt fór vel fram og engin stórvægileg óhöpp urðu. Á páskadag var farið upp á heiði með hóp af skíðafólki sem vantaði sinn árlegan drátt. Báðir sleðar sveitarinnar og snjóbíllinn fóru í þetta verkefni en líka sleðar í einkaeigu og voru sumir að prufa nýjar græjur enda veðrið til þess, brakandi sól og blíða. Í þetta skipti var farið með liðið upp á fellsháls, þaðan renndu þau sér niður að nónvatni. Þar tókum við þau aftur aftaní og drógum þau upp í skarð, þar fyrir ofan, þar sem við skildum við þau.

Þegar menn voru rétt búnir að koma sér niður og fara yfir það sem ekki var í lagi og setja meira eldsneyti á sleðana var haldið upp aftur þar sem skíðamót Íslands var haldið um helgina. Veðrið var nú ekki alveg eins gott og á páskum, snjókoma, vindur, skafranningur og mikil snjóblinda en þó smá sól á köflum. Ekki urðu nein meiðsli á keppendum þó oft hafi litlu munað. Í heildina litið gekk þetta bara vel og allir fóru sáttir heim.
Meðfylgjandi mynd var tekin um páskahelgina fram á Kubbanum. Til gamans má nefna að þangað hefur ekki verið sleðafært í háa herrans tíð, vegna of lítills snjós.
This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Comments are closed.